Fara í aðalinnihald

Hvað er stóuspeki?

Stóuspeki er heimspeki sem var talsvert vinsæl í Grikklandi til forna og síðar í Rómarveldi. Í afar einfölduðu máli fjallar stóuspekin fyrst og fremst um hvernig á að lifa. Upphafsmaður var Zenon frá Kítion (333 - 264 f.o.t.). Zenon kom frá Kýpur og fór til Aþenu að nema heimspeki. Hann fór síðar að kenna heimspeki sína í súlnagöngum við aðaltorgið (Agora). Súlnagöngin voru kölluð Stoa Poikile sem myndi útleggjast sem máluðu súlnagöngin eða málaða veröndin. Þar sem Zenon kenndi heimspeki sína á Stoa Poikile var farið að nota nafnið Stóuspeki eða Stóuismi yfir heimspekikerfið.

Stóuspekin skiptist í þrennt: Rökfræði, eðlisfræði/frumspeki og siðfræði. Siðfræðin hefur fengið mestu athyglina á seinni árum enda snúast flestar bækur sem hafa lifað til okkar tíma um dygðir og siðfræði. Stóuspekingar lýstu gjarnan rökfræðinni eða skynseminni sem girðinguna sem verndaði garðinn. Eðlisfræðin sagði okkur síðan hvernig garðurinn virkaði og siðfræðin segir okkur hvernig best er að huga að garðinum.

Eitt frægasta og mest lesna verk stóuspekinnar eru Hugleiðingar Markúsar Árelíusar, Rómarkeisara. En þær voru aldrei hugsaðar sem bók heldur voru þetta dagbækur hans þar sem hann skrifaði niður vangaveltur sínar um daginn út frá stóuspekinni. Verkið er því í raun leiðbeiningar í hvernig megi bæta sig og sitt líf. Fjöldamargir frægir einstaklingar og þjóðarleiðtogar til dagsins í dag segjast lesa hugleiðingarnar reglulega og lifa eftir þeim. Sem dæmi sagði Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, í viðtali við New York Times árið 1992, að hann lesi Hugleiðingarnar árlega. Annað verk sem er mjög vinsælt er Enchiridion eða handbók Epiktets. Verkið er til í íslenskri þýðingu Dr. Brodda Jóhannessonar frá 1955. Þar ber verkið heitið “Hver er sinnar gæfu smiður” og er það nokkuð góð þýðing þar sem handbókin er 53 stuttir kaflar sem fjalla um hvernig við getum skapað okkar eigin lífsgæði ef við fylgjum þessum ráðum. Loks er þriðja stóra verkið Bréf um siðfræði til Luciliusar eftir Senca. Verkið samanstendur af fjöldamörgum bréfum sem Seneca sendi til Luciliusar um hvernig eigi að lifa lífinu. Þar kennir til ýmissa grasa og bera kaflarnir heiti á borð við: Um stundvísi, um sanna vináttu, um hræðslu við dauðann, um öldrun, um hreysti og fleira.

Í stóuspekinni er lögð mikil áhersla á dygðir og þá tiltrú að hamingja okkar eða sálarró byggir ekki á skilningi okkar einum, heldur einnig á hegðun okkar og viðbrögðum við því sem gerist í lífi okkar. Því er lögð sérstök áhersla á að við getum ekki treyst á að heimurinn færi okkur hamingju. Síður en svo er heimurinn óútreiknanlegur og utan okkar stjórnar og því mikilvægt að átta sig á því hvað er undir okkar stjórn og hvað ekki. 

Iðkun á stóuspeki snýst að mörgu leyti um stöðugar æfingar í að fylgjast með viðbrögðum okkar af yfirvegun og þar með draga rökréttar ályktanir um heiminn sem byggja á staðreyndum, rökum og gagnrýni í stað tilfinningum, sjálfvirkum skoðunum, fljótfærni og hvatvísi.

Á síðustu árum hefur stóuspekin náð miklum vinsældum á ný og geta áhugasamir kynnt sér nútímalegar bækur, hljóðvörp og fleira eftir t.d. eftirfarandi höfunda og fræðimenn: