Fara í aðalinnihald

Að iðka stóuspeki


Allt sem er talið mikilfenglegt eða stórkostlegt er ekkert annað en hversdagslegir hlutir sem eru endurteknir aftur og aftur nógu oft. Þannig eru tónlistarmenn, íþróttamenn og myndlistarmenn ekki góðir fyrir tilviljun eina. Þeir sem ná langt æfa sig daglega. Þannig er eins háttað í sjálfsvinnu. Þeir sem vilja bæta sig og verða betri manneskjur eða líða almennt betur gera það ekki með því að lesa eina sjálfshjálparbók, fara í eina sálfræðimeðferð, fara einu sinni í kirkju eða prófa einu sinni hvað annað sem manneskjan telur réttu leiðina. Þeir sem raunverulega ná árangri eru þeir sem iðka viðfangsefnið sem hluta af daglegu lífi þeirra. 


Í kafla 29 í handbók Epiktets er komið inn á þrautseigjuna sem fylgir því að vera góður í einhverju. Þar er tekið dæmi um þann sem vill verða afreksmaður í íþróttum og stefnir á þátttöku í ólympíuleikunum. Þar bendir Epiktet á að það sé eitt að vilja vera afreksmaður og annað að vinna að því. Hann nefnir hvernig það kostar vinnu, þolinmæði, þrautseigju og bein í nefið. Hann bendir líka á að við þurfum að huga að öllum þessum kostnaði áður en við leggjum út fyrir honum. Því er eins háttað með sjálfsvinnu. Þegar við viljum nota stóuspeki til að öðlast hugarró og hamingju (eudaimonia) þá þurfum við fyrst að vita hvað felst í því. Þegar við vitum það og teljum okkur tilbúin að leggja það á okkur, þá fyrst getum við hafist handa. En hvað felst þá í því að iðka stóuspeki?


Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er mikilvægi þess að helga sér sjálfsvinnuna í einu og öllu. Maður þarf að venja sig á það að skoða heiminn og hugsa um allt út frá lífspeki sinni. Hugsun verður að hegðun, hegðun að vana og góðar venjur eru lykillinn að lífshamingjunni. En hugsunin þarf að fylgja einhverju formi og í þessu tilfelli er stóuspekin eitt slíkt sniðmát sem við getum notað til að skoða heiminn með. 

En við þurfum líka að skoða væntingar. Stóuspeki er ekki töfralausn. Stóuspeki kemur ekki í staðinn fyrir sérfræðinga sem sérhæfa sig í að hjálpa fólki. Stóuspeki er heldur ekki eitthvað sem ekki má bregða út af. Við erum mannleg og við munum aldrei verða fullkomlega stóísk. Þá þarf líka að hafa í huga að tímarnir breytast og menningin í dag er ólík því sem var til staðar á gullöld stóuspekinnar (þetta þarf sérstaklega að hafa í huga þegar höfuðrit stóuspekinnar eru lesin). Loks þarf líka að skoða kostnaðinn. Það þarf alltaf að leggja eitthvað út þegar maður vill fá eitthvað. Í þessu samhengi getur verið gagnlegt að lesa kafla 13, 22, 35 og 37 í handbók Epiktets áður en lesið er lengra.

Nú ert þú mögulega tilbúinn að leggja af stað. Þín leið er einstök í gegnum lífið. Enginn fer sömu leið. Því þarf hver og einn að finna hvað hentar honum best. En aðalatriðið er að gera eitthvað á hverjum degi (en þó vissulega með sveigjanleika). Hér er listi yfir nokkrar leiðir til að iðka stóuspeki. Flest öll atriði verða tekin fyrir á þessari síðu í ítarlegri greinum síðar.

1. Hægðu á

Hugur okkar er almennt á ákveðinni sjálfsstýringu og því erfitt að tileinka sér nýja hugsun ef við bregðumst alltaf við án þess að taka eftir því hvað fer í gegnum huga okkar. Ein forsenda stóuspeki er að heimurinn skiptist í það sem er undir okkar stjórn og það sem er ekki undir okkar stjórn. Við erum of oft að láta það sem er ekki undir okkar stjórn hafa óþarfa áhrif á okkur og því er mikilvægt að taka eftir því sem gerist í lífinu okkar. Til eru ýmsar leiðir til að hægja á og verður fjallað hér um það síðar.

2. Lestu

Lestu eins og þú getur um stóuspeki. Helst eitthvað á hverjum degi. Flest höfuðrit stóuspekinnar má finna á ensku á netinu án endurgjalds. Dæmi um slíkar bækur eru: 

Einnig er hægt að skoða nýrri bækur og má þá mæla með (og öðrum eftir sömu höfunda):


Einnig má skoða vefsíður eins og þessa eða finna greinar og annan fróðleik á netinu (t. d. í Facebook grúppum, á Reddit og víðar). Þá getur verið gott að lesa tilvitnun úr stóuspeki daglega. Til eru ýmis öpp sem henta í þeim tilgangi en einnig er hægt að velja eftir tilviljun hluta af einhverri bók um stóuspeki til að lesa daglega. 

3. Haltu dagbók

Það getur verið einstaklega gagnlegt að halda dagbók og skrifa í hana bæði á morgnana og á kvöldin.

Á morgnana er hægt að skrifa:

Verkefni dagsins. Hvað gæti verið áskorun í dag og hvernig ætla ég að bregðast við?


Á kvöldin er hægt að skrifa:

Hvernig gekk mér í dag? Hvað mátti gera betur? Hvernig get ég bætt mig á morgun? 


4. Sjáðu annað sjónarhorn

Í hugleiðingum Markúsar Árelíusar talar hann um að skoða aðstæður eins og horft sé á þær ofan frá. Þar lýsir hann í bók 9 hvernig maður skuli horfa á heildarmyndina í því samhengi. Hann lýsir sjónarhorni manns sem virðir heiminn fyrir sér séðan ofan frá og minnir sá hluti mjög á eina frægustu ræðu Carls Sagans (upprunalega úr bók hans) þar sem hann lýsir jörðinni með afar stóískum hætti. 

Þetta þurfum við að tileinka okkur daglega. Að horfa á heildarmyndina og skoða fleiri sjónarhorn. Skoða hvernig heimurinn er án túlkunar okkar. Sjá hlutina eins og þeir eru en ekki eins og við viljum eða teljum að þeir séu. 

5. Premeditatio malorum

Premeditatio malorum (foríhugun þess slæma) er vinsæl leið meðal stóuspekinga til að minnka kvíða. Í nútímasálfræði kallast þetta í ákveðnu samhengi hugræn berskjöldun. Í raun og veru er þetta ekkert annað en að spyrja sig „Hvað er það versta sem gæti gerst?“, þegar við stöndum fyrir einhverju sem veldur kvíða hjá okkur. Þá sjáum við oft að þó að hið versta sem gæti gerst gerist, þá ráðum við alveg við það og skiljum það jafnvel betur því við vorum búin að hugsa um það. Þess má þó geta að í þeim tilfellum þar sem áhyggjur eru hluti af almennri kvíðaröskun þá getur þessi æfing gert meiri ógagn en gagn og ef þig grunar slíkt ertu hvattur til að leita þér aðstoðar sérfræðings. 

6. Hugsanaskráning

Í hugrænni atferlismeðferð, og þá sérstaklega við þunglyndi, er algengt að nota hugsanaskráningu til að endurmeta þær hugsanir sem valda okkur vanlíðan. Slíkt getur nýst iðkendum stóuspekinnar vel þar sem stóuspeki og hugræn atferlismeðferð byggja á svipuðum kenningarfræðilegum grunni. Síðar verður fjallað sérstaklega um þetta í annarri grein á þessari síðu.

7. Memento Mori

Memento Mori þýðir: „Mundu, þú munt deyja“. Þessi latneska setning hefur verið vinsæl í aldanna rás til að minna fólk á dauðleika sinn. Í fljótu bragði virðist þessi setning vera neikvæð en skoðum þetta nánar.

Í kafla 21 í handbók Epiktets hvetur Epiktet fólk til að hugsa daglega um dauðann. Markús Árelíus segir í hugleiðingum sínum að ástæða þess að hann hugsaði reglulega um dauðann sé sú að hann sé eðlilegur hluti af lífinu og við eigum hvorki að hugsa um hann með eftirvæntingu né viðbjóði heldur sem staðreynd og hluta af lífinu. Það gefur annars vegar ákveðið frelsi því við hættum þá að óttast dauðann því hann er óumflýjanlegur og setur á sama tíma hlutina í ákveðið samhengi: „Hvað ef þú hefðir dáið rétt áðan en fengið annað tækifæri?“ Hvernig ætlar þú að nýta það?


Við Íslendingar eigum okkar eigið memento mori í Hávamálum:

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur.

Í Hávamálum má einnig túlka seinni hlutann þannig að við deyjum raunverulega aldrei ef við höfum gott orðspor. Það að fylgja höfuðdygðum stóuspekinnar er ein leið til að geta sér góðan orðstír (þó að það megi vissulega ekki vera markmiðið með iðkuninni). Sjáum hvernig Markús Árelíus lifir enn í dag á orðsporinu fyrir að hafa verið einn af fáum góðu Rómarkeisurum.

Þó skal hafa í huga að ef þunglyndi eða önnur geðröskun er til staðar er ekki mælt með nota þessa æfingu nema að vel íhuguðu máli og þá helst undir handleiðslu einhvers. 

8. Finndu fyrirmyndir

Þegar við erum börn erum við oft með fyrirmyndir sem við viljum líkjast. Það getur oft verið mesti drifkrafturinn í að bæta sig. Tónlistarmenn hvetja fólk til að æfa sig á hljóðfæri og íþróttamenn ástundun íþróttar. Oft hættum við að hafa fyrirmyndir þegar við verðum eldri en slíkt þarf ekki að gerast enda eru góðar fyrirmyndir gagnlegar.

Við lok 19. aldar í Bandaríkjunum varð spurningin: „Hvað myndi Jesús gera?“ (What would Jesus do eða einfaldlega WWDJ) vinsæl meðal fólks til að skoða hvernig best væri að bregðast við í siðferðislega flóknum aðstæðum. Þetta getur verið góður frasi fyrir kristna en fyrir þá sem hafa lesið heimspeki getur verið gagnlegt að spyrja sig t. d. hvað myndi Sókrates gera; eða Markús Árelíus; eða einhver þjóðarleiðtogi sem þú lítur upp til; eða foreldrar þínir; eins má auðvitað spyrja sig „Hvernig er best að bregðast við út frá þeirri manneskju sem ég vil verða?” Aðalatriðið er að finna fyrirmyndir sem þú telur að geti hjálpað þér í að fylgja þeim dygðum sem þú vilt fylgja.


Í hugleiðingum Markúsar Árelíusar byrjar hann á að telja upp fyrirmyndir sínar ásamt kostum þeirra sem hann vill tileinka sér. Fyrir einhverjar getur verið gott að skrifa samskonar niður fyrir sig.

9. Minnkaðu áreiti

Í nútímasamfélagi er mikið um stöðugt áreiti. Því getur verið gott að taka frí frá áreiti öðru hverju. Þá sérstaklega til að geta gefið sér tíma til að taka eftir hugsunum og æfa viðbrögð við þeim út frá stóuspekinni.

Dæmi: Skildu símann eftir heima, taktu heilan dag án raftækja, farðu í gönguferð í náttúrunni, taktu gott frí frá samfélagsmiðlum, stundaðu hugleiðslu, slökun eða aðrar róandi athafnir. Hugmyndir um athafnir má t. d. finna hér.

10. Þjálfun í sjálfstjórn

Í kafla 47 í handbók Epiktet er vísað til þess að sumar dygðir virðast vera eitthvað til að vera stoltur af (eins og hófsemi) en þá er gott að muna að þeir sem eru t. d. fátækir eru oft hófsamir án þess að hafa val um það. Stóuspekingar tóku stundum tímabil (t. d. heilan dag) til að haga sér eins og þeir væru fátækir í fæði, klæði og fleira. Þetta var gert bæði til að minna sig á dygðirnar og eins til að meta betur það sem gott er. Eins er hægt að æfa sig að fara í kalda sturtu bæði til að muna að hugurinn er stundum sterkari en líkaminn og eins til að læra að meta þann munað sem heitt vatn er.