Fara í aðalinnihald

Stóuspeki og trúleysi





Amma mín var mjög kristin kona. Á heimili hennar var því mikið af munum sem tengdust kristinni trú. Þar voru litabækur um ævi Jesú, krossar á veggjum, trúarleg málverk, biblíur, bæklingar og mannakorn. Frá ömmu lærði ég margt um lífið. Margt af því góða sem ég lærði má þakka að hluta kristnu uppeldi bæði beint frá henni og í gegnum foreldra mína. Þessu er ég þakklátur og get ég ekki annað en hugsað með hlýhug og þakklæti til hennar. En þegar ég varð eldri hætti ég að trúa á guð og skráði mig úr þjóðkirkjunni og stend nú utan trúfélaga. Ég ber þó í dag, eftir nokkuð hlykkjótta vegferð, virðingu fyrir kristinni trú og fylgjendum hennar. Það er margt sem ég græddi á trúarlegu uppeldi. En margt af því er auðveldlega hægt að skipta út með einhverju veraldlegu. Vandinn er hins vegar að það er ekkert aðhald í flestum hefðum sem ekki hafa rætur í trúarbrögð. Hvernig eigum við að rækta dygðir  ef það vantar jarðveginn?

Mér finnst í dag margt vanta í veraldlega tilveru mína og margra þeirra sem ekki trúa á guð. Eins og fyrr segir er það sérstaklega jarðvegurinn eða sviðið þar sem allt fer fram á. Kirkjan er til dæmis samfélag kristinna manna. Samfélag sem kennir samkennd, hluttekningu og máttinn sem felst í því þegar margir hjálpast að. Trúin á líka sína eigin bók. Bók með svör. Flestir vita að bókin er ekki endilega með Svörin með stóru S-i og ákveðnum greini. En hún er samt með einhver svör eða tilraunir til að svara. Það að tilheyra samfélagi og að hafa hvöt til að leita svara ásamt trú á að það sé til svar er allt verndandi þáttur þegar kemur að geðheilsu. Við þurfum að tilheyra og við þurfum að trúa. Trúin þarf þó ekki að vera á eitthvað yfirnáttúrulegt. Við þurfum bara að trúa að lífið getur verið öðruvísi. Að lífið getur verið betra. Að við getum gert eitthvað í því. Við þurfum von.

Það eru vissulega margar leiðir til að iðka trú sína en það var ein leið sem mér fannst alltaf sniðug hjá henni ömmu. Það voru mannakornin sem eru litlir miðar þar sem aðeins stóð eitthvað eins og Ok 15.1. Þessir miðar voru á stærð við mjólkurmiðana sem maður fékk í grunnskóla og komu í öllum regnbogans litum. Þessir miðar voru hafðir í fallegri skál og á hverjum degi var einn miði dreginn. Ef á honum stóð Ok 15.1 var flétt upp að Orðskvíðunum í Biblíunni. Þar er leitað eftir kapitula 15 og versi 1. En þar stendur „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði”. Þetta er þá gott veganesti inn í daginn. Eins er maður hægt og rólega að lesa alla biblíuna og styrkja þar með trú sína. Þá er maður einnig að auka líkur á að maður sæki kirkju, taki þátt og tilheyri samfélaginu. Hér verð ég þó að nefna að mikið af efni Biblíunnar á ekkert erindi við nútímann nema með vel stilltri síu nútímasiðferðis. Því er að mínu mati ekki ráðlagt að leita í Biblíuna í blindni eftir siðferðislegri leiðsögn. En sama hvað manni finnst þá verður að viðurkennast að mannakorn, biblían, kirkjan, bænir og fleira er einstaklega skilvirk leið til að minna sig stöðugt á bæta sig. 

En það sem vefst fyrir mér er mikilvægi þess að trúa á guð ef maður ætlar að fara hina kristnu leið til að bæta sig. Þar er ástæðan fyrir sjálfsvinnunni oftast til að þóknast vilja guðs og auka líkur á aðgöngumiða í himnaríki þegar jarðvistinni lýkur. En hvað með okkur sem ekki trúa en vilja bæta okkur? Hver eru verðlaunin? Það er einmitt hér sem stóuspekin kemur sterk inn. Þar er markmið dygða að öðlast sálar- og  hugarró eða hið hamingjusama líf á meðan á jarðvist stendur. Stóuspekin byggir á efnishyggju í stað tvíhyggju. Stóuspekin túlkar oftast guð sem eiginleika í öllu og öllum (algyðistrú) fremur en sjálfstæða veru. Þessi eiginleiki er líka stundum einfaldlega kallaður náttúra eða eðlislögmál heimsins. En sama hvað við köllum það, þá viðurkenna stóuspekingar að sá eiginleiki er utan við okkar stjórn og því þurfum við að leggja allt okkar kapp í að bregðast við lögmáli heimsins með því sem er undir okkar stjórn og þar er dygðin okkar áttaviti. Þá má líka bæta hér við að margir fræðimenn halda því fram að nútímakristni byggi mikið á verkum stóuspekinnar. Þá má líka bæta við að stóuspeki er ekki eingöngu hugsuð fyrir trúlausa. Stóuspekin gengur þvert á öll trúarbrögð og getur verið góð viðbót fyrir þá sem hafa trú á eitthvað annað. En fyrir þá sem eru með öllu trúlausir tel ég stóuspekina vera einstaklega góða leið til að rækta góð gildi og bæta lífsgæði sín og heilsu.